Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 390  —  314. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um getraunir, nr. 59 29. maí 1972, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.


    2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Reikningsár félagsins er almanaksárið.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er borið fram að ósk stjórnar Íslenskra getrauna. Á aðalfundi félagsins árið 2000 var samþykkt að færa reikningsár félagsins til samræmis við reikningsár aðila þeirra sem að félaginu standa og þeirra erlendu getraunafyrirtækja sem félagið er í samvinnu við. Reikningsár þessara aðila er í flestum tilvikum almanaksárið en reikningsár félagsins er nú frá 1. júlí til 30. júní.
    Þegar starfsemi félagsins hófst var enska knattspyrnan meginviðfangsefni þess. Með því að hafa reikningsárið frá 1. júlí til 30. júní náðist að halda leiktímabili ensku knattspyrnudeildarinnar innan reikningsársins. Starfsemi félagsins hefur breyst mikið síðari ár og enska knattspyrnan orðið minni þáttur í starfsemi félagsins. Því telur stjórn þess nauðsynlegt að breyta reikningsárinu til samræmis við reikningsár félaga innan íþróttahreyfingarinnar og samstarfsaðila.
    Menntamálaráðuneytið, sem skv. 1. mgr. 4. gr. laganna fer með málefni Íslenskra getrauna, að öðru leyti en því að dómsmálaráðuneytið setur reglur um starfrækslu getrauna, sbr. 5. gr. laganna, styður að lagabreyting þessi nái fram að ganga.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 59/1972,
um getraunir, með síðari breytingum.

    Samkvæmt frumvarpinu verður félaginu Íslenskar getraunir heimilað að hafa almanaksárið sem reikningsár í stað þess að miða við tímabilið frá 1. júlí til 30. júní. Lögfesting frumvarpsins hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.